föstudagur, desember 15, 2006

 

Galdralækningar

Auglýsing í Noticias ,,Mogga" Mósambík þann 15.12.2006 (í lauslegri þýðingu minni)

Hefðbundinn læknir, Dr. Khani Olho frá Austur-Afríku

Fæst við sjúkdóma og vandamál: getuleysi, astma, sykursýki, ofnæmi, ófrjósemi, kláða, bakverki, bólgur í fótum, að vera elskuð eða elskaður (hann getur gert fólk ástfangið af einhverjum eftir pöntun), bólur og útbrot, kalla á fjarlæga ættingja (ef einhver hefur flutt langt í burtu og ekki sést síðan getur hann látið þá koma) og svo framvegis. Tek fólk í tíma á Av. 24. de Julho á horninu á.........

Hér trúa allir á hefðbundnar lækningar en þetta er í fyrsta skipti sem ég sé svona auglýsingu í blaði. Það sem mér finnst athyglisvert er að hann minnist ekki á alnæmi en segir ,,og svo framvegis." Alnæmi er vaxandi vandamál í landinu og algengt er að fólk eyði stórum fjárhæðum í galdralækna sem segjast geta læknað ýmsa fylgikvilla alnæmis. Ég þekki til dæmis alnæmisveika konu sem hefur þjáðst af nokkrum þeim kvillum sem lýst er að ofan, svo sem útbrotum, kláða, bólgum í fótum og bakverk.

 

Að kaupa blóð

Í gær beið mín bréf undir útidyrahurðinni minni þegar ég kom á fætur. Það var frá einum af vörðunum í blokkinni þar sem ég bý og var hann að biðja mig um að lána sér u.þ.b. 2100 íslenskar krónur til að kaupa blóð handa konunni sinni. Þetta eru 38% af mánaðarlaununum hans sem eru u.þ.b. 5400 krónur. Ég spjalla oft við vörðinn og vissi því að konan hans þarf lífsnauðsynlega á aðgerð að halda og er búin að vera á biðlista síðan í mars. Ástæðan fyrir að hann bað mig er líklega sú að ég hef stundum rétt honum nokkra hundraðkalla til að kaupa vítamín sem honum var sagt að kaupa handa konunni.Aðgerðinni hefur verið frestað hvað eftir annað en er nú ráðgerð í janúar. Þetta er ríkissjúkrahús sem er eini kostur flestra landsmanna og á að gefa þeim sem á þurfa að halda ókeypis eða mjög ódýra hjálp. Þeir sem geta borgað eins og ég hafa hinsvegar aðgang að allt annarri þjónustu og einhvernveginn virðast þeir vera nógu margir til þess að engin þjónusta er eftir handa hinum. Verðinum var sagt að koma með einhverja á sjúkrahúsið sem gætu gefið blóð fyrir aðgerðina þar sem ekki væri til blóð á sjúkrahúsinu!!! Hann var búinn að tala við ættingjana en þeir gátu ekki gefið blóð. Með því að borga þessar 2100 krónur var hinsvegar hægt að fá blóðið sem ekki var til.
Þetta fyrirbæri, spilling, er það sem ég á erfiðast með að sætta mig við hér í Mósambík. Spilling er ekki bara mútuþægni starfsmanna og stjórnmálamanna á hærri stigum þjóðfélagsins. Hún finnst líka hjá lögreglunni, í skólum og á sjúkrahúsum. Stjórnvöld reka mikinn áróður gegn spillingu og manni er sagt að hún sé á undanhaldi en hún er samt sem áður áþreifanlegt fyrirbæri sem verður að breytast til að landið geti þróast. Til þess þarf að verða hugarfarsbreyting og hún verður ekki á einum degi. Það sem mér finnst ég geta gert sem einstaklingur er að neita að taka þátt með því að múta sjálf ekki fólki til að auðvelda mér lífið. Ég hef tvisvar verið stoppuð af lögreglunni fyrir smávægilegar yfirsjónir og mér hefur verið sagt að ég þurfi að fara á lögreglustöðina að borga sekt en hægt sé að leysa málið á staðnum. Í bæði skiptin stóð ég fast á því að fara á lögreglustöðina og borga sektina og í báðum tilfellum var mér þá sleppt. Þetta kostaði að vísu nokkuð þref og tíma og margir nenna því miður ekki að standa í því og taka bara upp veskið og borga. Einu sinni kom líka til mín maður sem var lengi búinn að vera í atvinnuleit og bað mig um að láta sig hafa 1500 krónur svo hann gæti ,,keypt" sér starf. Starfsmaður í einhverju fyrirtæki ætlaði að ráða hann ef hann borgaði honum þessa upphæð. Ég neitaði þessu og sagði honum að ég gæti ekki tekið þátt í slíkum mútum. Ekki gat ég þó sagt verðinum að hann yrði að neita að borga blóðið, þar er hreinlega um líf eða dauða konunnar hans að tefla. Svo ég varð að láta prinsippið víkja og hjálpa manninum.

Á sama tíma og vörðurinn minn stendur í því að reyna að útvega blóð svo hægt sé að bjarga lífi konunnar hans er mitt helsta vandamál að finna jólagjafir handa fjölskyldunni á Íslandi. Spurningin er ekki hvort ég geti fundið eitthvað sem fólk vantar, það eiga jú allir flest það sem þá vanhagar um. Spurningin er hvort ég finni eitthvað sem fólk hafi ánægju af og komi fyrir heima hjá sér. Ég lifi semsagt í tveimur mjög ólíkum heimum.

þriðjudagur, desember 05, 2006

 
Jæja nú er spennandi að sjá hvað gerist. Við Þóra erum að reyna að setja inn athugasemdatæknina.

mánudagur, desember 04, 2006

 

Hjálp óskast við bloggsíðustillingar

Ég veit ekki hvernig ég fór að því en einhvernveginn tókst mér að slökkva á athugasemdamöguleikanum. Þetta hefur greinilega virkað í byrjun en ég breytt einhverju. Ég er búin að skoða stillingarnar og get ekki betur séð en að allt eigi að vera í lagi en ekki er hægt að skrifa athugasemd við færslur. Getur einhver snillingur sagt mér hvað ég á að gera (skrifað athugasemd í dagbókina hún er a.m.k. enn opin)

sunnudagur, desember 03, 2006

 

Í sól og sumaryl

Ég vaknaði við símann klukkan sjö. Það var Helgi bróðir að athuga hvort ég hefði nokkuð verið að reyna að ná í hann úr einhverju öðru númeri en mínu. Það hafði verið hringt tvisvar í hann í nótt úr mósambísku númeri. Ég kannaðist ekkert við það þar sem ég svaf vært á mínu græna eyra í alla nótt. Einhver hefur fengið númerið hans í fyrra þegar hann var í heimsókn og hefur dottið í hug að gefa honum bíp og ekkert spáð í hvaða tími sólarhringsins væri. Bíp er annars óþolandi fyrirbæri hér í Mósambík. Þegar fólk á ekki næga inneign til að hringja þá annað hvort sendir það manni skilaboð sem segja ,,viltu hringja í mig" eða hringir einu sinni og skellir svo á. Aragrúi manns í Maganja hefur númerið mitt og íbúar í einu fátækasta héraði heims eiga auðvitað aldrei inneign. Svo eru það hinir sem eiga næga inneign til að hringja í vini sína en finnst sjálfsagt að spara innistæðuna þegar þeir vilja tala við ríka hvíta konu sem vinnur fyrir erlenda stofnun. Sumir sem ég þekki finnst þetta óþolandi og hringja einfaldlega ekki til baka og segja að ef einhver vilji tala við þá sé lágmark að þeir borgi símtalið. Ég hef hinsvegar alltaf áhyggjur af að kannski sé þetta Jamia sem ég bjó hjá í fyrra að reyna að ná í mig og vanti einhverja aðstoð. Marta litla hefur verið veik og Jamia segir að hún fái flogaveikisköst. Jamia á ekki síma og fær hina og þessa lánaða til að senda mér bíp. Svo eru það Nico og Victo, bræðurnir tveir sem ég er að styrkja í skóla. Þeir búa á mismunandi stöðum og hringja oft í mig en eiga hvorki síma né inneign. Þannig að ég er alltaf í viðbragðsstöðu. Ég fæ nokkur bíp frá hinum og þessum í hverri viku og sérstaklega um helgar. Þannig að ég ákvað að taka hringinguna af símanum mínum í gær til að geta einbeitt mér að skrifunum.
Nú er örugglega einhver að reyna að senda Helga bíp og gerir sér enga grein fyrir hversu dýrt það er að hringja frá Íslandi í farsíma í Mósambík.

Þar sem ég sofnaði út frá skrifunum um miðnætti í gær var ég orðin útsofin og fór á fætur eftir símhringinguna og fram í stofu. Þar var glaðasólskin og ég ákvað að fara aðeins í sólbað út á svalir. Franklín kom til baka frá Íslandi í gær og Ella konan hans kom með honum. Hún sagði að ég yrði að fá smá lit áður en ég færi heim um jólin. Ekki vil ég nú að fjölskyldan skammist sín fyrir mig sökum fölleika svo ég ákvað að skella mér í smá sólbað með uppkastið að kaflanum en um áttaleytið var mér orðið svo heitt að ég flúði aftur inn í loftkælda svefnherbergið mitt. Það er svalara af því að það er hinumegin í húsinu. Það er semsagt komið sumar og mamma væri betur komin hingað á svalirnar til mín. Jæja best að fara að skrifa áfram með smjörið, upp með fjörið.

laugardagur, desember 02, 2006

 

sjálfsvorkunn og sérréttindi

Þegar ég vaknaði klukkan 8 í morgun þjáðist ég af sjálfsvorkunn. Á meðan að Þóra, Nína, Kjartan og börn eru í skemmtiferð í Svasílandi og Jói Þ í Nelspruitferð ,,þarf" ég að skrifa aðferðafræðikafla í doktorsritgerð. Ég geri mér grein fyrir að þetta er algerlega sjálfskapað víti en það gerir það engu skárra. Svo ég snéri mér á hina hliðina og tókst að forða mér frá skrifunum til 10 þegar ég gat ekki sofið lengur. Þá fór ég á fætur og fram í stofu, fékk mér ávaxtasalat og kveikti á CNN. Aldrei þessu vant voru hvorki niðurdrepandi fréttir af Írak né Palestínu. Þar sem alnæmisdagurinn var í gær voru fréttirnar helgaðar alnæmisvandanum sem er auðvitað eitthvað sem ég þekki mjög vel af því að stunda rannsóknir og störf í Mósambík síðustu tvö ár. Síðan kom heldur meira upplífgandi þáttur um Brasilíu og framleiðslu á lífrænu eldsneyti en vinur minn í UEA var einmitt þar við rannsóknir í fyrra. Þar sem CNN hefur óþolandi magn af auglýsingum inni í þáttum eins og Ameríkana er siður þá náði ég að eyða dálitlum tíma á netinu um leið og ég horfði. Kallast það ekki ,,multitasking!" Jæja þar sem ég sat og vorkenndi mér mundi ég eftir hvað það var sem kom mér í skriftarstuð um síðustu helgi. Þá var ég í sömu aðstöðu þegar Jói Þ. hringdi í mig og sannfærði mig um gildi þess að fara út úr húsi og borða góðan hádegismat. Svo ég ákvað að labba út á Mundos sem er veitingastaður um 5 mínútna labb frá blokkinni minni. Ég tók af mér alla skartgripi og skildi símann eftir heima þar sem ég fékk tölvupóst í gær sem sagði frá því að tveir Danir hefðu nýlega lent í vopnuðu ráni um hábjartan dag. Desember er glæpamánuðurinn í Mapútó. Ég hef heyrt tvær höfuðskýringar á því 1) Fátæka og atvinnulausa langar líka til að halda upp á jólin, 2) Þetta er sá mánuður sem mest fjármagn er í umferð þar sem launþegar fá margir jólabónus. Þar af leiðandi er meiri markaður fyrir alls kyns góss og þar af leiðandi auðveldara að losna við ránsfeng. Hvað um það nú mega fjölskyldumeðlimir og vinir á Íslandi ekki fyllast ótta því ég tel Mapútó þrátt fyrir allt vera tiltölulega örugga borg. Ég hef nánast aldrei á tilfinningunni hér að ég sé stödd í einhverjum skuggalegum aðstæðum. Reyndar er ég nánast alltaf í vinnunni eða heima að læra og keyri á milli þessara staða í traustum bíl! Allavegana sá ég engar vafasamar persónur á leiðinni til Mundos, bara einn betlara og u.þ.b. 10 sölumenn með ýmsan varning. Mundos er rekinn af Suður-Afríkönum og er mjög vinsæll staður, sérstaklega af útlendingum. Þar fæst besta pitsan í bænum, quatro staggione með ætisþislum og öðru góðgæti sem ég borða aldrei endranær. Ég hámaði í mig eina slíka á meðan ég las nýjasta uppkastið af kaflanum mínum og fannst mér lesturinn mun skemmtilegri en endranær. Svo fylgdist ég auðvitað aðeins með fólkinu í kring, á næsta borði var t.d. mjög ástfangið par sem er sjaldséð sjón hér. Ég dró þá ályktun að stúlkan væri hér við störf eða í námi og að kærastinn hefði komið í heimsókn. Þetta ályktaði ég út frá því að hún var svona Mapútóbrún, þ.e. fölbrún en kærastinn var glær í gegn. Maður er Mapútóbrúnn þegar maður eyðir mestum tíma inni í húsi við vinnu en fær samt lit af því að skreppa á ströndina eða í sund um helgar eða sitja aðeins úti við eftir vinnu. Þar sem ég sat þarna og hámaði í mig pitsu og kók og drakk kaffi; veitingar sem kostuðu 900 krónur eða 2/3 af lágmarkslaunum í landinu gat ég ekki annað en hugsað um hversu lánsöm ég er að vera Vesturlandabúi og hafa heilsu, menntun og vinnu og flesta mína ættingja og vini á lífi og að ég skuli hafa fengið tækifæri til að ferðast og gera það sem mér finnst skemmtilegt og vinna við það sem ég hef áhuga á. Nú ætla ég að setjast með tölvuna og kaflauppkastið út á svalir og vera dugleg og hætta að vorkenna mér þó ég þurfi að leggja eitthvað á mig við að skrifa ritgerð að eigin vali (ég er auðvitað með birgðir af súkkulaði og kóki til að grípa til þegar pitsan fer að sjatna í belgnum).

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

[ Skoða gestabók ] [ Kvitta í gestabókina ]
Sækið ykkur ókeypis gestabók hér