laugardagur, desember 02, 2006

 

sjálfsvorkunn og sérréttindi

Þegar ég vaknaði klukkan 8 í morgun þjáðist ég af sjálfsvorkunn. Á meðan að Þóra, Nína, Kjartan og börn eru í skemmtiferð í Svasílandi og Jói Þ í Nelspruitferð ,,þarf" ég að skrifa aðferðafræðikafla í doktorsritgerð. Ég geri mér grein fyrir að þetta er algerlega sjálfskapað víti en það gerir það engu skárra. Svo ég snéri mér á hina hliðina og tókst að forða mér frá skrifunum til 10 þegar ég gat ekki sofið lengur. Þá fór ég á fætur og fram í stofu, fékk mér ávaxtasalat og kveikti á CNN. Aldrei þessu vant voru hvorki niðurdrepandi fréttir af Írak né Palestínu. Þar sem alnæmisdagurinn var í gær voru fréttirnar helgaðar alnæmisvandanum sem er auðvitað eitthvað sem ég þekki mjög vel af því að stunda rannsóknir og störf í Mósambík síðustu tvö ár. Síðan kom heldur meira upplífgandi þáttur um Brasilíu og framleiðslu á lífrænu eldsneyti en vinur minn í UEA var einmitt þar við rannsóknir í fyrra. Þar sem CNN hefur óþolandi magn af auglýsingum inni í þáttum eins og Ameríkana er siður þá náði ég að eyða dálitlum tíma á netinu um leið og ég horfði. Kallast það ekki ,,multitasking!" Jæja þar sem ég sat og vorkenndi mér mundi ég eftir hvað það var sem kom mér í skriftarstuð um síðustu helgi. Þá var ég í sömu aðstöðu þegar Jói Þ. hringdi í mig og sannfærði mig um gildi þess að fara út úr húsi og borða góðan hádegismat. Svo ég ákvað að labba út á Mundos sem er veitingastaður um 5 mínútna labb frá blokkinni minni. Ég tók af mér alla skartgripi og skildi símann eftir heima þar sem ég fékk tölvupóst í gær sem sagði frá því að tveir Danir hefðu nýlega lent í vopnuðu ráni um hábjartan dag. Desember er glæpamánuðurinn í Mapútó. Ég hef heyrt tvær höfuðskýringar á því 1) Fátæka og atvinnulausa langar líka til að halda upp á jólin, 2) Þetta er sá mánuður sem mest fjármagn er í umferð þar sem launþegar fá margir jólabónus. Þar af leiðandi er meiri markaður fyrir alls kyns góss og þar af leiðandi auðveldara að losna við ránsfeng. Hvað um það nú mega fjölskyldumeðlimir og vinir á Íslandi ekki fyllast ótta því ég tel Mapútó þrátt fyrir allt vera tiltölulega örugga borg. Ég hef nánast aldrei á tilfinningunni hér að ég sé stödd í einhverjum skuggalegum aðstæðum. Reyndar er ég nánast alltaf í vinnunni eða heima að læra og keyri á milli þessara staða í traustum bíl! Allavegana sá ég engar vafasamar persónur á leiðinni til Mundos, bara einn betlara og u.þ.b. 10 sölumenn með ýmsan varning. Mundos er rekinn af Suður-Afríkönum og er mjög vinsæll staður, sérstaklega af útlendingum. Þar fæst besta pitsan í bænum, quatro staggione með ætisþislum og öðru góðgæti sem ég borða aldrei endranær. Ég hámaði í mig eina slíka á meðan ég las nýjasta uppkastið af kaflanum mínum og fannst mér lesturinn mun skemmtilegri en endranær. Svo fylgdist ég auðvitað aðeins með fólkinu í kring, á næsta borði var t.d. mjög ástfangið par sem er sjaldséð sjón hér. Ég dró þá ályktun að stúlkan væri hér við störf eða í námi og að kærastinn hefði komið í heimsókn. Þetta ályktaði ég út frá því að hún var svona Mapútóbrún, þ.e. fölbrún en kærastinn var glær í gegn. Maður er Mapútóbrúnn þegar maður eyðir mestum tíma inni í húsi við vinnu en fær samt lit af því að skreppa á ströndina eða í sund um helgar eða sitja aðeins úti við eftir vinnu. Þar sem ég sat þarna og hámaði í mig pitsu og kók og drakk kaffi; veitingar sem kostuðu 900 krónur eða 2/3 af lágmarkslaunum í landinu gat ég ekki annað en hugsað um hversu lánsöm ég er að vera Vesturlandabúi og hafa heilsu, menntun og vinnu og flesta mína ættingja og vini á lífi og að ég skuli hafa fengið tækifæri til að ferðast og gera það sem mér finnst skemmtilegt og vinna við það sem ég hef áhuga á. Nú ætla ég að setjast með tölvuna og kaflauppkastið út á svalir og vera dugleg og hætta að vorkenna mér þó ég þurfi að leggja eitthvað á mig við að skrifa ritgerð að eigin vali (ég er auðvitað með birgðir af súkkulaði og kóki til að grípa til þegar pitsan fer að sjatna í belgnum).





<< Home

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

[ Skoða gestabók ] [ Kvitta í gestabókina ]
Sækið ykkur ókeypis gestabók hér