miðvikudagur, október 04, 2006

 

Sjálfboðaliðar og stelpukvöld

Eins og ég var búin að segja frá eru tvær ungar stúlkur komnar hingað út. Þær langar að læra eitthvað tengt þróunarhjálp og ákváðu að skella sér hingað og bjóða fram starfskrafta sína í sjálfboðavinnu. Þar sem það kostar oft töluverða peninga að fara í gegn um sjálfboðaliðamtök þá ákváðu þær að stökkva bara út í djúpu laugina og koma á eigin vegum. Þar sem ÞSSÍ er að vinna með kvenna og félagsmálaráðuneytinu og ég er búin að vera að skoða munaðarleysingjaheimili þá spurði ég yfirmanneskjuna hvort hún vissi um einhvern sem þyrfti á hjálp að halda. Hún sagði að það vantaði alltaf aðstoð á heimilunum og við fórum að heimsækja 1. maí barnaheimilið í gær. Þetta er heimilið sem við Þóra völdum til að styrkja með hluta af peningunum úr Gerum Gott söfnuninni (sjá www.123.is/gott krækjuna hér til hliðar). Við hittum ungan Þjóðverja sem er búinn að vera þarna í tvo mánuði og hann sagðist aðallega vera að leika við elstu börnin sem eru 4-5 ára. Svo er annar sjálfboðaliði þarna sem hjálpar til við ungabörnin. Þar sem þarna er mikið af börnum vantar upp á að starfsfólkið geti sinnt félagslegum þörfum barnanna og gefið sér tíma til að örva þau með því að taka þau upp úr vöggunum og knúsa þau aðeins.
Stefanía er líka búin að heimsækja heimili fyrir börn með alnæmi sem er rekið af
nunnum. Mér finnst þetta frábært framtak hjá Stefaníu og Charlotte og þeirra framlag á örugglega eftir að koma að gagni. Jafnframt á þetta eftir að verða ómetanleg reynsla fyrirþær. Það er greinilega einhver mjög jákvæð bylgja í gangi á Íslandi og mikill hlýhugur til Mósambík, fyrst var það Gerum gott söfnunin og svo eru allt í einu mættir tveir sjálfboðaliðar á svæðið. Enda er Mósambík frábært land og ekki veitir af allri mögulegri aðstoð.

Ég bauð svo stelpunum í mat í gærkvöld og Þóru með. Íslendinganýlendan er orðin svo fjölmenn að ég ákvað að skilja hina útundan í bili. Það er svosem ekki vandi að bjóða í mat þegar maður hefur húshjálp sem er góður kokkur. Aida eldaði kjúkling og hrísgrjón, bjó til salat, steikti franskar og útbjó rækjur til steikingar. Rækjur eru ein af auðlindum landsins og ég er að tala um stórar rækjur sem líkjast humrinum heima. Hún kryddar þær með hvítlauk og sítrónu og salti og svo marinerast þetta í ísskápnum í nokkra tíma. Ég þarf svo ekki að gera annað en að steikja þetta á pönnu. Að vísu luma ég á einu bragði sem ég lærði af Elsu portúgölskukennara en það er að hella eins og hálfri flösku af bjór á pönnuna þegar þær eru orðnar steiktar og láta þær sjóða aðeins í bjórnum. Ég mæli eindregið með þessu. Svo átti ég grænmeti niðursaxað og þurfti ekki annað en að snöggsteikja það á pönnu og komin var þessi dýrindismáltíð.

Eftir matinn settumst við út á svalir og horfðum á eldingar!!! Það er að koma sumar og þar með rigning og henni fylgja oft þrumur og eldingar og það er stórkostlegt að sitja og horfa út á hafið og náttúrulega flugeldasýningu.

Nú er ég komin upp í vinnu. Það er almennur frídagur hér því 4. október er dagurinn sem skrifað var undir friðaryfirlýsinguna sem batt endi á borgarastyrjöldina 1992. Það er því ágætt tækifæri til að sitja í ró og næði, án ónæðis frá síma og erindum og skrifa skýrslur.

Bless í bili

mánudagur, október 02, 2006

 

mánudagskvöld í Maputo

 

Önnur vika liðin ég veit ekki alveg hvert þær fara en þær hverfa hjá með stigvaxandi hraða. Ég sit í stofusófanum og skrifa á meðan það er auglýsingahlé á Prison Break. Það er verið að sýna fyrsta þátt í fyrstu seríu og ég ákvað að horfa þar sem ég hef heyrt að þetta séu góðir þættir. Mánudagar og fimmtudagar eru framhaldsþáttakvöldin mín en ég ætla reyndar að læra aðeins eftir þáttinn.

Ég er rosa ánægð með alla sem skrifuðu í gestabókina og nú verð ég víst að vera dugleg að skrifa þannig að fólk nenni að fylgjast með síðunni. Ég var mikið að vinna í síðustu viku því við héldum þriggja daga vinnustofu með kvenna og félagsmálaráðuneytinu og það krafðist mikils undirbúnings. Svo kom ég þreytt heim á kvöldin og nennti ekki að hanga á netinu. Það verður líka mikið að gera á næstunni að undirbúa heimsókn stjórnarinnar að heiman.

Það er byrjað að hitna, komið vor og loftræstingin komin í gang á skrifstofunni. Ég sef samt ennþá undir sæng en bráðum lýkur þeim lúxus og maður þarf að fara að sofa við loftkælingu eða veltandi sér á nóttunni vegna hita.

Í síðustu viku bættist heill hópur í Íslendinganýlenduna. Nína Helgadóttir verður hér næstu tvö ár á vegum Ruða krossins og maðurinn hennar og tvö börn komu með henni. Síðan er komin ung stúlka sem heitir Stefanía og ætlar að vinna sjálfboðavinnu og kynnast landi og þjóð. Við erum að fara að heimsækja munaðarleysingjaheimilið á morgun, það sem við keyptum mjólk og fl. fyrir, fyrir hluta af söfnunarfénu úr Gerum eitthvað gott. Hún er að hugsa um að hjálpa til þar í einhvern tíma. Svo kom önnur stúlka Ólöf að nafni sem er að leita sér að vinnu og ætlar að vera í einhverja mánuði. Ég er reyndar ekki búin að hitta hana. Ég er frekar ófélagslynd þessa dagana, hangi heima og læri þegar ég er ekki í vinnunni.

Jæja ég vona að myndin komi upp, netið er hægvirkt þessa dagana og skype virkar ekki og internetsíminn virkaði heldur ekki í dag. Mér datt í hug að sýna ykkur útsýnið úr stofuglugganum mínum eða reyndar af svölunum en það er risagluggi á stofunni líka. Útsýnið er aðalkosturinn við íbúðina mína og ég ætla aldrei aftur að búa í kjallara! Þetta er auðvitað mamma sem er þarna í sólbaði þegar hún kom í sumar. Bið að heilsa í bili. Posted by Picasa

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

[ Skoða gestabók ] [ Kvitta í gestabókina ]
Sækið ykkur ókeypis gestabók hér