mánudagur, júní 26, 2006

 

Samstarfsfólk mitt á skrifstofunni gaf mér skemmtilega afmælisgjöf sem sjá má hér á myndunum. Þetta er ,,kapulana" sem er mjög einkennandi fyrir Afríku, þetta er aðalfatnaður kvenna um allt land en auk þess nota konur kapulana til að hengja börnin sín utan á sig, sem dúk, ábreiðu, lak o.fl. Þetta kapulana sem ég fékk í afmælisgjöf var þó af sérstakri gerð þar sem þetta eru tvö stór kapulana saumuð saman í miðjunni með blúndu. Estrela sem er að kenna mér að klæða mig í þetta útskýrði að þetta væri tákn móðurinnar og að slík kapulana væri ómissandi hluti af heimanmundi. Þá færir fjölskylda biðilsins verðandi tengdamóður slíkt kapúlana og er það virðingartákn. Slík kapúlana er einnig ómissandi við dauðsfall og líkið oft vafið inn í klæðið. Mér þótti vænt um að fá þessa gjöf þar sem mér fannst að þar með væri ég á vissan hátt boðin velkomin í mósambískt samfélag. Mér fannst það líka tákn um að ég væri búin að eignast nýja vini þar sem þau höfðu greinilega pælt út hvað væru ,,mínir litir." Á neðri myndinni er ég svo með skýluna sem er einnig ómissandi. Mér var sagt að konur ættu alltaf að hafa slíka skýlu þegar þær væru að elda, sérstaklega ef að tengdamóðirin væri meðal gesta. Þau sögðu mér að ef að tendamóðir fyndi hár í mat sínum gæti það orðið skilnaðarorsök! Þannig að þegar ég fór fram í eldhús að útbúa eftirréttinn sagðist ég ætla að setja upp skýluna þó enga ætti ég tengdamóðurina. Konan sem situr við hliðina á mér á myndinni er Custódia sem vinnur með mér á skrifstofunni. Estrela sem er að hengja kapúlanað utan á mig er yfirmaður kvenna og barnadeildarinnar í kvennamálaráðuneytinu og einn af mínum helstu samstarfsmönnum þar.
 Posted by Picasa

 

Fyrsta bloggið

Jæja mér var farið að líða eins og fornaldarskrímsli að vera ekki með bloggsíðu. Ég veit ekki hversu dugleg ég verð að skrifa en finnst þetta góð leið til að leyfa fjölskyldu og vinum að fylgjast aðeins með lífinu hér í Mósbík. Ég var samt að velta fyrir mér hvaða tungumál ég ætti að nota þar sem ég á svo marga vini sem ekki skilja íslensku. Kannski ég geri úrdrátt af og til á ensku líka.

Ég sit uppi í sófa með tölvuna í kjöltunni. Það er almennur frídagur í Mósambík þar sem 25. júní er þjóðhátíðardagur landsins og hér eru frídagar færðir yfir á næsta virkan dag ef þeir falla á helgidag. Við Íslendingarnir hér og fjölskyldur fórum í bíltúr í gær til Pequenos Libombos sem er suður af Mapúto. Þarna eru stífla og vatnsból sem sér okkur hér í Maputo fyrir drykkjarvatni. Það er gaman að keyra um svæðið og fallegt útsýni yfir vatnið en efnameira fólk Mósambík ku hafa tryggt sér landið þarna í kring. Við héldum svo áfram að landamærum Svasílands og það var ekki laust við að landslagið minnti mig á heimahagana þegar við keyrðum um bugðótta vegi upp hæðir og hóla. Þó að hér sé auðvitað mun meiri gróður.

Á laugardaginn hélt ég upp á afmælið mitt og bauð vinnufélögunum. Eins og flestir útlendingar hér er ég með vinnukonu og hún hjálpaði mér að undirbúa veisluna. Ég ákvað að elda buff stroganoff og kjúklingarétt sem Hidda vinkona mín gaf mér uppskrift að fyrir löngu. Þetta féll vel í kramið hjá gestunum. Þetta var nýnæmi fyrir Mósambíkanana og tilbreyting fyrir Íslendingana svo allir voru sáttir. Um miðnætti voru allir farnir heim enda var þetta þriðja matarboð hópsins á viku!

Jæja nú er best að hætta þessu og athuga hvort þetta birtist á vefnum þegar ég ýti á takkann.

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

[ Skoða gestabók ] [ Kvitta í gestabókina ]
Sækið ykkur ókeypis gestabók hér