sunnudagur, desember 03, 2006

 

Í sól og sumaryl

Ég vaknaði við símann klukkan sjö. Það var Helgi bróðir að athuga hvort ég hefði nokkuð verið að reyna að ná í hann úr einhverju öðru númeri en mínu. Það hafði verið hringt tvisvar í hann í nótt úr mósambísku númeri. Ég kannaðist ekkert við það þar sem ég svaf vært á mínu græna eyra í alla nótt. Einhver hefur fengið númerið hans í fyrra þegar hann var í heimsókn og hefur dottið í hug að gefa honum bíp og ekkert spáð í hvaða tími sólarhringsins væri. Bíp er annars óþolandi fyrirbæri hér í Mósambík. Þegar fólk á ekki næga inneign til að hringja þá annað hvort sendir það manni skilaboð sem segja ,,viltu hringja í mig" eða hringir einu sinni og skellir svo á. Aragrúi manns í Maganja hefur númerið mitt og íbúar í einu fátækasta héraði heims eiga auðvitað aldrei inneign. Svo eru það hinir sem eiga næga inneign til að hringja í vini sína en finnst sjálfsagt að spara innistæðuna þegar þeir vilja tala við ríka hvíta konu sem vinnur fyrir erlenda stofnun. Sumir sem ég þekki finnst þetta óþolandi og hringja einfaldlega ekki til baka og segja að ef einhver vilji tala við þá sé lágmark að þeir borgi símtalið. Ég hef hinsvegar alltaf áhyggjur af að kannski sé þetta Jamia sem ég bjó hjá í fyrra að reyna að ná í mig og vanti einhverja aðstoð. Marta litla hefur verið veik og Jamia segir að hún fái flogaveikisköst. Jamia á ekki síma og fær hina og þessa lánaða til að senda mér bíp. Svo eru það Nico og Victo, bræðurnir tveir sem ég er að styrkja í skóla. Þeir búa á mismunandi stöðum og hringja oft í mig en eiga hvorki síma né inneign. Þannig að ég er alltaf í viðbragðsstöðu. Ég fæ nokkur bíp frá hinum og þessum í hverri viku og sérstaklega um helgar. Þannig að ég ákvað að taka hringinguna af símanum mínum í gær til að geta einbeitt mér að skrifunum.
Nú er örugglega einhver að reyna að senda Helga bíp og gerir sér enga grein fyrir hversu dýrt það er að hringja frá Íslandi í farsíma í Mósambík.

Þar sem ég sofnaði út frá skrifunum um miðnætti í gær var ég orðin útsofin og fór á fætur eftir símhringinguna og fram í stofu. Þar var glaðasólskin og ég ákvað að fara aðeins í sólbað út á svalir. Franklín kom til baka frá Íslandi í gær og Ella konan hans kom með honum. Hún sagði að ég yrði að fá smá lit áður en ég færi heim um jólin. Ekki vil ég nú að fjölskyldan skammist sín fyrir mig sökum fölleika svo ég ákvað að skella mér í smá sólbað með uppkastið að kaflanum en um áttaleytið var mér orðið svo heitt að ég flúði aftur inn í loftkælda svefnherbergið mitt. Það er svalara af því að það er hinumegin í húsinu. Það er semsagt komið sumar og mamma væri betur komin hingað á svalirnar til mín. Jæja best að fara að skrifa áfram með smjörið, upp með fjörið.





<< Home

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

[ Skoða gestabók ] [ Kvitta í gestabókina ]
Sækið ykkur ókeypis gestabók hér