laugardagur, maí 19, 2007

 
Hér kemur smá ferðasaga frá því að ég fór til Maganja um síðustu helgi sem var auðvitað mikið ævintýri eins og alltaf. Ég var komin til Quelimane upp úr hádegi og var að vona að ég kæmist til Maganja sama dag svo ég þyrfti ekki að leita mér að gistingu. Ekki síst þar sem ég var með stóra ferðatösku fulla af fötum og gjöfum til Eliu og Ducha (munaðarlaus börn sem ég þekki) og annarra sem með þurftu. Maganja er 150 kílómetra frá Quelimane og ég vissi að ferðin yrði aðeins flóknari en venjulega þar sem brú á miðri leið hafði brotnað og nú þurfa rúturnar að skilja mann eftir við ána og önnur rúta að bíða eftir manni hinumegin. Búið er að gera trébrú sem maður getur labbað yfir með dótið sitt.

Um leið og ég kom til Quelimane var ég komin í hæga taktinn sem þar ríkir. Það tók klukkutíma að láta okkur hafa farangurinn og mér var sagt að bílstjórinn á farangursbílnum væri veikur og það hefðir þurft að bera allan farangurinn í afgreiðsluna! Ég hafði áhyggjur af því að síðasti chappann (almennu farartækin) yrði farinn og hringdi í Charlotte sem var í Maganja (önnur stúlkan sem fór þangað í sjálfboðavinnu sem ég hafði milligöngu um). Hún hringdi og lét skila til bílstjórans sem var í Quelimane að það væri ,,branca" (hvít kona) á leiðinni og hann ætti að bíða eftir henni. Bíllinn var enn á staðnum þegar ég kom á rútustöðina og var að verða fullur þannig að við komumst fljótlega af stað. Sætin frammí voru upptekin þannig að ég var ein af fjórum sem troðið var í þriggja manna sæti, bara eins og venjulega. Mér leist hinsvegar ekki á þegar við keyrðum út á veginn því það var eitthvað skrítið hljóð í bílnum og ég velti því fyrir mér hvort hann kæmist alla leið og það hvarflaði að mér að biðja hann um að stoppa og fara frekar á hótel. Hinsvegar hefði það orðið vesen að ná öllum farangrinum mínum út aftur og finna gististað og svo langaði mig ekkert að þurfa að mæta á rútustöðina klukkan 5 morguninn eftir, þannig að ég lét slag standa.

Ferðin gekk vel til Namacurra sem er 80 km frá Maganja en þar bilaði hann og ljóst varð að hann færi ekki lengra. Bílstjórinn hefði auðvitað ekki átt að fara af stað á biluðum bíl og hér vorum við, klukkan orðin rúmlega þrjú og við stopp. Byrjað var að taka farangurinn niður af þakinu og bístjórinn lofaði að reyna að redda öðrum bíl. Allir voru mjög þolinmóðir eins og að þetta væri sjálfsagður hlutur og ég líka þar sem ég er auðvitað vön slíkum uppákomum. Ég fór á bar við hliðina og fékk mér kók og samloku og eftir u.þ.b. klukkutíma birtist lítill pallbíll, með tveimur sætum frammí og palli aftaná. Fólkið stökk til og byrjaði að hlaða öllum farangrinum á pallinn og sjálfu sér með. Ég sagði við bílstjórann að honum dytti væntanlega ekki hug að láta setja mig á þennan pall, ég yrði að fá að sitja í framsætinu. Eftir einhvað spjall sín á milli gáfu þeir sem höfðu verið í framsætinu á rútunni sætið eftir, það hefur stundum kosti að vera hvít kona! Þarna var ein önnur ung stelpa og hún bar sig einnig illa og sagðist ekki treysta sér til að sitja aftan á og henni var troðið inn líka. Að vísu ætluðum við aldrei að geta lokað hurðinni því þetta var eins manns sæti og karlinn sem hafði verið framí var með marga poka af appelsínum og öðru góssi í sætinu. Ég varð líka að taka bæði tölvupakpokann minn og flugfreyjutöskuna með mér þarna inn þar sem ekkert pláss var á pallinum, né þakinu þar sem einn maður sat!! Hin stúlkan sat næst bílstjóranum og varð að setja hægri fótinn hægra megin við gírstöngina þannig að við kæmumst báðar fyrir. Bílstjórinn var hikandi og spurði hvort hún færi þá ekki að halda að hann væri að káfa á henni ef hann ræki sig eitthvað í lærið á henni við gíraskiptin. Þetta var nú samt eina leiðin og við héldum af stað. Bílstjórinn kallaði annað slagið út um gluggann til að fylgjast með hvort allir væru enn aftan á og sagði við okkur að hann vildi nú helst ekki að fólkið dytti af pallinum og yrði því að fara óskaplega hægt. Áður en ég fór upp í bílinn hafði ég spurt hinn bílstjórann a.m.k. þrisvar hvort það væri ALVEG ÖRUGGT að það yrði bíll hinumegin við brúna þegar við kæmum þangað því annars ætlaði ég til baka með honum til Quelimane. Hann sagðist vera búinn að hringja í bílstjórana hinumegin og að þeir myndu bíða eftir okkur þar. Ekki treysti ég nú þessu alveg svo ég hringdi í Charlotte sem talaði við Tarzan sem er nágranni hennar og aðalbílstjórinn. Hann sagði henni að það væru tveir bílar að bíða eftir okkur hinumegin.

Þegar við komum að ánni var að byrja að rökkva sem gerist mjög hratt. Þarna biðu strákar eftir því að bera farangur yfir ána þar sem bjórkassar og önnur aðföng eru flutt á þessum bílum. Einn sem hafði verið með mér í bílnum greip stóru ferðatöskuna mína og bar hana yfir og ég dröslaðist með hitt. Við fórum niður einhvern stíg og ég hraðaði mér til að týna ekki stráknum með farangurinn, síðan tók við smá trébrú og stígur upp hinumegin. Þegar við komum upp á veginn var ljóst að enginn bíll var á staðnum, eins og reyndar burðarstrákarnir voru búnir að segja okkur. Þarna stóð ég ásamt u.þ.b. 20 körlum og 1 konu með a.m.k. 40 kíló af farangri, á moldarvegi uppi í sveit, u.þ.b. 35 kílómetra frá Maganja og það var komið myrkur. Moskítóflugurnar byrjuðu að bíta en ég hafði sett bæði moskítospreyið og vasaljósið mitt í bakpokann og þóttist ansi forsjál. Ég þurfti auðvitað að spreyja á alla viðstadda líka sem fannst þetta mikið nýnæmi. Sem betur fer var símasamband þannig að ég hringdi SOS símtal til Charlotte. Hún komst að því að báðir bílarnir hefðu einhverra hluta vegna ákveðið að fara til baka til Maganja og ég velti því fyrir mér hvernig það yrði að sofa á veginum með öllum körlunum og moskítóflugunum og svo ákváðu viðstaddir að fræða mig um að á þessum árstíma væri mikið af snákum á ferð á nóttunni!!! Ég hafði svosem engar áhyggjur af öryggi mínu en fannst þetta samt ekki þægilegt þar sem ég var með mikið af peningum á mér til að dreifa til ýmissa sem voru búinir að hringja í mig og biðja um aðstoð. Charlotte lofaði að redda þessu og labbaði heim til Tarzans bílstjóra. Hann var hinsvegar ekkert spenntur fyrir að sækja okkur, sagði að nú væri komið kvöld og við yrðum þá að borga honum 1800 meticais (um 5000) íslenskar krónur. Ég fór og tilkynnti þetta og sagði að við yrðum að koma þessu á hreint áður en að maðurinn kæmi. Annars sá ég fram á að það myndi taka alla nóttina að rífast við hann þegar hann kæmi á staðinn. Þetta var skipulagt og bíllinn kom á staðinn og annan klukkutíma tók að koma farangrinum upp á þak og rífast yfir tveimur bjórum sem höfðu duttið af þakinu. Eigandinn vildi fá þetta borgað af bílstjóranum en það gekk treglega. Jæja við vorum komin til Maganja um 10 um kvöldið þannig að allt fór þetta vel. Ég gisti í húsinu þeirra Charlotte og Stebbu en aðalmarkmiðið með ferðinni var að hjálpa Charlotte við afhendinguna á húsinu. Hún og Stebba stofnuðu stúlknaklúbb og planið var að húsið yrði fyrir klúbbinn. Hinsvegar var enginn á staðnum sem gat haldið áfram með verkefnið og þær ákváðu því að afhenda samtökum húsið sem eru einskonar regnhlífarsamtök fyrir ýmis samtök í Maganja. Þannig geta samtökin haldið fundi og notað húsið og þær voru búnar að koma upp litlu bókasafni fyrir staðinn.

Tíminn leið ansi hratt, ég fór og skoðaði húsið mitt sem er úr leirsteinum og með stráþaki. Þetta er ábyggilega um 30-40 fermetra hús þannig að nú getur enginn sagt að ég eigi ekki húsnæði yfir höfuðið, þó að ég hafi reyndar keypt húsið til að konurnar sem ég bjó hjá í rannsókninni gætu flutt. Ég vildi samt hafa þetta á mínu nafni þannig að ekki skapaðist einhver öfund út í þær og þannig að þeim dytti ekki í hug að selja þetta aftur einn daginn á hálfvirði! Ég er líka stoltur eigandi mangótrés, bananatrés og tveggja appelsínutrjáa. Marta nafna mín grét eins og venjulega þegar hún sér mig en var nú samt ekki eins hrædd við mig og seinast enda er hún orðin eins og hálfs árs. Það var síðan biðlisti af fólki sem þurfti að ræða við mig, yfirleitt um ýmis vandamál eins og að eiga ekki peninga til að láta búa til persónuskilríki, sem þýðir að fólk fær ekki að taka próf í skólanum. Svo þurfti að koma til skila öllum fötunum og góssinu og helst í myrkri þannig að enginn yrði öfundsjúkur. Þetta tókst nú á endanum og ég keypti líka stílabækur fyrir munaðarleysingjasamtökin sem Rogerio kennari stofnaði og hefur milligöngu um. Hann kom á fundi með mér og nemendunum sem við létum sauma skólabúninga á. Við erum semsagt Reynir tölvumaður og vinnufélagar hans sem sendu mér 50 000 krónur fyrr á árinu. Ég tók líka megnið af þessum peningum sem ég var að útbýtta núna úr þeim sjóði en hugsanlega tek ég eitthvað úr Gerum gott sjóðnum líka, ég á eftir að taka þetta saman.

Charlotte hélt svo svaka kveðjuveislu. Á sunnudeginum bauð hún trommu og danshópi sem hélt heilmikla sýningu og þangað mættu nágrannarnir og eitthvað af þeim sem ég þekkti líka. Seinasta kvöldið var svo eldaður heilmikill kvöldverður og dansað kuduro sem er tónlist frá Angola sem krakkarnir elska. Ég útvegaði mér þá tónlist meðan ég bjó í Maganja og var búin að skrifa tvo diska þar sem ég vissi að fólk á almennt ekki þessa tónlist í Maganja. Það var hefð fyrir því í hverfinu mínu í gamla daga að kaupa batterí um helgar í ferðageislaspilarann sem Helgi og Halldóra komu með og spila kuduro og svo mættu krakkarnir í hverfinu og dönsuðu. Þetta vissu nágrannakrakkar Charlotte og voru alltaf að spyrja mig hvenær við myndum dansa Kuduro. Þannig að við fengum lánaðar svaka græjur hjá nágranna hennar og það var slegið upp heilmiklu diskói og dansað langt fram á kvöld.

Svo var stöðugur straumur af konunum úr gamla hverfinu mínu sem komu til að færa mér hrísgrjón og jarðhnetur af akrinum sínum og einnig fékk ég bæði önd og hana og maður sem ég þekki lítið birtist með lítinn grís! Ég vissi ekki hvaðan á mig stóð veðrið þegar hann birtist á hjóli og hafði bundið saman hanann á löppunum og hengt á stýrið. Síðan var eitthvað lifandi á bögglaberanum, vafið inn í klæði sem barðist um og gaf frá sér torkennileg hljóð. Það kom semsagt í ljós að þetta var grís. Ég vissi ekki hvernig ég gæti afþakkað hann án þess að vera móðgandi svo ég sagði manninum að ég gæti hvergi alið hann og þá sagðist hann ætla að ala hann sjálfur og láta mig hafa hann seinna. Ég vona að hann sitji nú ekki uppi með grísinn og mikinn kostnað við eldið. Hann færði mér líka jarðhnetur og ég vissi bara ekkert hvað ég átti að segja því þetta var maður sem ég hef aldrei hjálpað neitt eða gert neitt fyrir. Það kom líka kona til mín síðasta daginn og vildi gefa mér hænu til að taka með mér til Mapútó og ég bað hana um að geyma hana frekar og bjóða mér í mat næst þegar ég kæmi. Charlotte hélt kveðjuveislu fyrir vini sína og ég bauð fjölskyldunni sem ég bjó hjá og þær komu með hænu og öndin mín og haninn voru étin og brögðuðust vel og fóru vel í maga. Þar sem ég er úr sveit líð ég engar sálarkvalir þó dýrin gisti í garðinum og ég sjái þau vappa um þar og fái þau á diskinn næsta dag. Charlotte hafði samvisksbit að drepa þau en svo hafði haninn byrjað að gala mjög snemma og vakið hana um morguninn og öndin drullað og útbíað alla stéttina svo samviskubitið hvarf.

Jæja það er búið að vera gestkvæmt undanfarið, Mónika vinkona mín fór í gær og nú var að lenda fyrrum samstarfsmaður minn frá Nhamatanda og annar sem var kennarinn minn í DNS í gamla daga. Þeir búa nú samt ekki hjá mér þar sem þeir eru þrír og voru að koma að vinna í verkefni. Ég ætla nú samt að skreppa á ,,Costa de Sol" veitingahúsið og hitta þá núna og fá mér rækjur og humar og smokkfisk og fleira nammi namm.

Knús til allra.

Marta svarta í Afríku

Comments:
ohhh...svo gaman að lesa mósambíksögur!! (...söknuður...) :)
knús,
Hjördís
 
Skrifa ummæli



<< Home

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

[ Skoða gestabók ] [ Kvitta í gestabókina ]
Sækið ykkur ókeypis gestabók hér