þriðjudagur, apríl 24, 2007

 

Vörðurinn minn

Ég verð að færa nýjustu fréttir af verðinum mínum sem ég bloggaði um í desember. Konan hans átti að fara í uppskurð í febrúar en þá hafði hún komið margsinnis í nærfellt ár og alltaf verið vísað frá. Þegar hún svo kom í febrúar var tekin blóðprufa og henni sagt að því miður gæti hún ekki farið í uppskurðinn því hún væri of blóðlítil. Hún fékk fyrirmæli um að borða járnríka fæðu, drekka ávaxtasafa o.s.frv. Þetta olli verðinum miklu hugarangri þar sem hann hefur innan við 6000 íslenskar krónur í mánaðarlaun og ferna af ávaxtasafa kostar um 100 íslenskar krónur. Áður en að því kom að hún kæmist aftur í blóðprufu varð hún mjög veik og yngri systir hennar sem hafði hugsað um hana á daginn stakk af um nótt. Hún trúði því víst að systir hennar væri að deyja og ef hún væri viðstödd þegar hún dæi þá veiktist hún líka. Þetta kom sér mjög illa þar sem vörðurinn vinnur á 12 tíma vöktum og nú var enginn til að hugsa um konuna sem þurfti að mata og þrífa rúmliggjandi. Fljótlega eftir þetta varð konan svo veik að hann fór með hana á sjúkrahús og hún lést svo í mars. Ég verð að viðurkenna að á tímabili var ég farin að forðast að hitta vörðinn og laumaðist stundum upp með lyftunni í kjallaranum, þegar ég vissi af honum á vakt uppi. Þegar maður býr í landi eins og Mósambík lærir maður að brynja sig upp að ákveðnu marki fyrir erfiðleikunum og fátæktinni en þegar að þeir taka á sig persónulega mynd geta svona sögur ekki annað en haft áhrif á mann. Aumingja vörðurinn er búinn að vera mjög sorgmæddur síðan að konan dó. Hann er ósáttur við starfsfólk spítalans og kennir þeim um, hann telur að hægt hefði verið að bjarga konunni ef hún hefði fengið læknismeðferð fyrir ári þegar æxlið eða hvað þetta var fór að hrjá hana. Svo sagði hann að það væri alveg skelfilegt að eftir allan kostnaðinn við að reyna að lækna hana þá hefði hún bara dáið. Nú er hann búinn að fyrirframgreiðslu af laununum til að standa straum af jarðarförinni og öðrum kostnaði. Á föstudaginn sagði hann mér að hann væri að fara með yngstu börnin fjögur til Inhambane héraðs (um 500 km í norðurátt) til að skilja þau eftir hjá foreldrum sínum. Hann sagðist ekki geta hugsað um þau einn. Í morgun hóaði hann í mig og sagði mér að nú væru þau komin til foreldra sinna en að hann þyrfti að senda þeim peninga fyrir mat og öðrum nauðsynjum. Þau væru vön að drekka te í Mapútó og þyrftu áfram að drekka te. Þetta var svona dulbúin beiðni um fjárhagsaðstoð. Oft er það þannig að ef maður hjálpar einhverjum þá komast þeir í einskonar áskrift hjá manni. Ég er alveg til í að halda áfram að rétta að honum aur af og til en það skrítna er að þegar hann var í fríi vegna jarðarfararinnar sagði annar vörður mér að hann hefði ekki átt nein börn með þessari konu. Sá vörður sagði mér að hann hefði gifst þessari og hefði svo þurft að ná sér í aðra konu þar sem þessi gat ekki átt börn. Þannig að nú velti ég því fyrir mér hvort hinn vörðurinn hafi misskilið hann svona hrapalega eða hvort vörðurinn minn blessaður hafi fundið þessi börn sín upp til að drýgja tekjurnar aðeins ;-) Hann veit eflaust að fátt er líklegra til að höfða til manngæsku hvítrar konu og losa um pyngjuna hjá henni en sveltandi börn. Ég trúi því nú samt ekki alveg upp á hann.

Comments:
úfff!!
Það var nú stundum ágætt að geta sagt að ég talaði ekki portúgölsku.
 
Skrifa ummæli



<< Home

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

[ Skoða gestabók ] [ Kvitta í gestabókina ]
Sækið ykkur ókeypis gestabók hér