sunnudagur, september 24, 2006

 

Frh: Bílaævintýri í Xai-Xai


Jæja held ég nú áfram þar sem frá var horfið að segja frá ævintýrum okkar í ferðinni til Xai-Xai í júlí! Það byrjaði semsagt með því að við mamma og Þóra vorum vaktar upp um miðja nótt þar sem bíllinn okkar hafði fallið ofan í holu. Við vorum heldur betur fegnar að komast í háttinn um tvöleytið um nóttina eftir að ná bílnum upp óskemmdum. Við Þóra þurftum svo að vakna rétt fyrir sjö til að borða morgunmat þar sem við ætluðum að taka þátt í vinnustofunni með kvennamálaráðuneytinu og þurftum að borða morgunmat á hótelinu og koma okkur til Xai-Xai. Morgunmaturinn átti að vera til klukkan sjö en eins og oft er í Mósambík varð bið á honum. Við ákváðum samt að vera rólegar og borða þar sem það hafði komið í ljós daginn áður að þátttakendurnir á vinnustofunni voru frekar feimnir við þessar hvítu konur og samstarfsfólk mitt hafði bent mér á að það væri betra að ég væri ekki alltaf inni með þeim. Klukkan var því orðin átta þegar við lögðum af stað frá hótelinu sem leið lá eftir strandveginum frá hótelinu og til Xai-Xai bæjar. Xai-Xai er höfuðstaðurinn í Gaza sýslu og er um 200 kílómetra frá Mapútó.
Á leiðinni til Xai-Xai bar ýmislegt fyrir augu, konur með ýmsar byrðar á höfðinu, krakka og kókostré. Við vorum í sólskinsskapi, ánægðar með að bíllinn skyldi ekki skemmast af hnjaski næturinnar. Strandvegurinn liggur upp á þjóðveg númer eitt og þegar við komum að honum stoppaði ég við stöðvunarskyldu sem var svolítið frá veginum. Ég sá bíl koma en tók af stað en sá svo að hann var á mikilli ferð svo ég stoppaði aftur um það bil sem ég kom að veginum. Nokkrar sekúndur liðu og búmmmmm!!!! keyrt hafði verið aftan á bílinn. Við Þóra litum hvor á aðra og bara trúðum ekki að þetta væri að gerast, það voru 6 tímar liðnir síðan við náðum bílnum upp úr holunni og það gat bara ekki verið að við værum lentar í ákeyrslu. Bíllinn sem keyrði aftan á okkur var sjappa sem er almenningsfarartæki Mósambík. Þetta var lítill sendibíll sem greinilega hafði komið, séð mig stoppa og haldið að ég væri komin af stað aftur og sjálfur ekki virt stöðvunarskylduna. Ég fór út úr bílnum og farþegar hins bílsins voru þarna í hóp. Maður nokkur kom til mín og sagði að þetta væri þeirra sök, það væri engin spurning og að við skyldum bara gera út um málið á staðnum. Mér leist ekki á það þar sem ég var á fyrirtækisbíl og taldi að best væri að hringja á lögregluna og tala við tryggingarfélagið. Sérstaklega þar sem ég var í ókunnugu landi og vissi ekki alveg hvernig svona hlutir virkuðu. Líka þar sem ég hafði fengið hnykk á hálsinn og hugsaði með mér að ég gæti verið meidd. Þar sem ég var auðvitað ekki með númerið hjá lögreglunni og vissi ekki hvernig ég ætti að snúa mér í þessu hringdi ég í Joào bílstjóra. ,,Joao það var keyrt aftan á mig, viltu koma. Þarf ekki líka að hringja í lögregluna?" Aumingja Joao, nýbúinn að vaka hálfa nóttina við að draga bílinn upp úr holu, ekki veit ég hvað hann hugsaði en hann brást vel við og sagðist myndu koma við á lögreglustöðinni. Hann kom síðan með lögreglunni og þeir mældu allt í bak og fyrir og sögðu okkur og hinum bílstjóranum svo að koma á löggustöðina. Þegar þangað var komið var okkur vísað inn á litla skrifstofu og maður tók af okkur skýrslu og pikkaði frásögnina á ritvél. Þarna sást hvergi tölva. Síðan var okkur sagt að bíða og við fórum framfyrir og stóðum þar þangað til aðsópsmikil kona kom og skipaði þeim að rýma til fyrir okkur svo við gætum sest (sjá mynd). Síðan byrjaði annar maður að skrifa skýrsluna upp og það tók óralangan tíma þar sem allt var handskrifað. Við Þóra hringdum í tryggingarfélagið sem sagði að við þyrftum að láta setja í skýrsluna að ég hefði fengið hnykk á höfuðið og Þóra á bakið. Ég bað lögguna um þetta og hann jánkaði því. Eftir u.þ.b. tvo tíma var maðurinn búinn að skrifa skýrsluna að því er okkur skildist en hann sagði að hún yrði ekki tilbúin fyrr en næsta dag. Við útskýrðum að við værum að fara úr bænum snemma næsta dag og þá sögðu þeir að við skyldum koma við í bakaleiðinni. Mér leist ekki á þetta og ekki Joao heldur og við skildum enganveginn af hverju þeir gátu ekki klárað að skrifa skýrsluna og láta okkur hafa hana. Mér datt helst í hug að bílstjórinn ætti vini innan löggunnar og að þeir ætluðu að láta skýrsluna hverfa og enginn myndi kannast neitt við neitt þegar við kæmum við á leiðinni til baka. Svo ég hringdi í Estrelu sem vinnur í ráðuneytinu og var þarna með okkur. Hún hafði sent mér sms þegar ég lét hana vita að okkur myndi seinka vegna árekstrar og sagt að ef ég þyrfti á hjálp að halda myndi hún tala við ráðuneytisstjóra sýslunnar.Hún sagðist myndu láta hann í málið. Síðan líður ekki á löngu áður en konan sem hafði verið að skipa fyrir um morguninn birtist. Hún var þá yfirmanneskja staðarins og sagði okkur að koma inn á skrifstofuna sína. Hún afsakaði að það hefði verið svo mikið að gera að hún hefði ekkert mátt vera að aðstoða okkur og að hún hefði ekki vitað að við ættum ekki að fá skýrsluna. Hún sagði að við myndum að sjálfsögðu fá skýrsluna samdægurs og að hún skyldi bara ekkert í þessum seinagangi hjá lögreglumönnunum. Ráðuneytisstjórinn hafði semsagt hringt í hennar yfirmann og henni hafði verið skipað að sinna okkur.Það er eins gott að þekkja fólk á réttum stöðum þegar svona kemur uppá. Ég bað hana um að sjá til þess að það kæmi fram í skýrslunni að ég hefði fengið hnykk á hálsinn en hún sagðist ekki geta gert það. Hvers vegna ekki spurði ég. ,,ég er ekki læknir, ég get ekki sjúkdómsgreint þig" ,,nei ég er ekki að biðja um það," útskýrði ég. ,,ég er bara að biðja um að þú segir að ég kvarti yfir eymslum í hálsinum vegna þess að tryggingarfélagið mitt segir að það þurfi að koma fram í skýrslunni" ,,nei það gengur ekki, þú verður að fara í rannsókn á sjúkrahúsinu." Því nennti ég ómögulega en það var ógerlegt að sannfæra hana um annað og hún sagðist skyldu fara með okkur þannig að við þyrftum ekki að bíða lengi. Þannig að við brunuðum upp á sjúkrahús og þar tóku á móti okkar tveir óskaplega indælir læknar. Þeir vildu taka af okkur röngtenmynd en við höfðum engan áhuga á því. Við ímynduðum okkur að tækin væru gömul og svunturnar ónýtar og að við kæmum út þrælgeislavirkar. Eftir svolítið þref leystist málið með að læknirinn skrifaði skýrslu og lýsti því að við kvörtuðum undan eymslum í baki og hálsi. Hann fékk síðan símanúmerið mitt og sagðist ætla að hringja í mig þegar hann kæmi næst til Mapútó! Jæja aftur fórum við upp á löggustöð og þá var okkur sagt að nú væri hægt að ganga frá skýrslunni og hefta læknisvottorðið við og að við gætum komið aftur eftir tvo tíma að sækja þetta. Svo við náðum að fara og kaupa okkur samloku og fara á vinnustofuna og gera það sem við þurftum að gera þar. Þegar við snérum aftur var skýrslan tilbúin en yfirlöggan talaði um að við yrðum svo kölluð fyrir rétt seinna. Það leist mér ekkert á og spurði hvers vegna við þyrftum að koma fyrir rétt. ,,nú til þess að dæma um sektina á árekstrinum, við getum ekkert sagt til um það," sagði hún. ,,já en hinn bílstjórinn á sökina, þetta var aftanákeyrsla og hann er búinn að viðurkenna það," sagði ég. ,,það stendur ekkert um það hér," sagði löggan. ,,já en það er enginn vafi, ég var kyrrstæð og hann keyrði aftan á mig" sagði ég. Viðurkennir þú það, spurði hún hinn bílstjórann. Jaaaá sagði maðurinn. ,,Jæja þá verðurðu að skrifa undir yfirlýsingu um að þú ætlir ekki að fara í mál," sagði konan og rétti honum blað. Ég var ekki alveg að fatta hvers vegna hann átti að skrifa undir þessa yfirlýsingu, þar sem mér fannst að ef einhver ætti að höfða mál væri það ég, þar sem hann olli árekstrinum. Jú þetta átti að vera svona, sagði löggan. Hann skrifaði yfirlýsinguna og síðan átti ég að skrifa undir hana líka. "Ha! Á ég að skrifa undir það að hann ætli ekki að fara í mál við mig? Af hverju á ég að skrifa undir það?" spurði ég. ,,Já þú þarft að skrifa undir það", sagði löggan. Ég er búin að læra það að stundum er þýðingarlaust að þrefa og best að gera bara eins og manni er sagt svo ég skrifaði á blaðið að ég hefði lesið yfirlýsinguna hans og að ég væri hinn bílstjórinn. Siðan sagði löggan að nú yrðum við að fara í tryggingarfélagið þar sem þeir yrðu að dæma um hver borgaði viðgerðina. Þar þurfti að fylla út ítarlegt eyðublað m.a.með nöfnum á föður mínum og móður. Þetta þurfti að handskrifa og hinn bílstjórinn gerði það og þetta tók óratíma.Við vorum ekki komnar þarna út fyrr en um hálf fimm. Þetta var semsagt búið að taka allan daginn og var ekkert sérlega skemmtilegt en lífsreynsla engu að síður. Að sjálfsögðu fengum við svo ekkert út úr tryggingunum og urðum að borga viðgerðina á bílnum okkar sjálf. Sem betur fer var bíllinn lítið skemmdur. Tryggingarfélagið sagði að hinn bíllinn væri skráður á föður bílstjórans sem væri í Suður-Afríku og hefði ekki skilið eftir yfirlýsingu hjá tryggingarfélaginu um að sonurinn mætti reka bílinn á meðan. Þar að auki var sonurinn ekki með rétt ökuskírteini og mátti því í raun ekki keyra bílinn. Hmm ég mæli ekki með að fólk lendi í árekstrum í Mósambík. Posted by Picasa





<< Home

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

[ Skoða gestabók ] [ Kvitta í gestabókina ]
Sækið ykkur ókeypis gestabók hér