sunnudagur, júlí 09, 2006
Mamma á markaðinum í Pemba. Við keyptum okkur sinn ástarpunginn hvor og brögðuðust þeir ágætlega
. Sölufólkið var vingjarnlegt og fannst gaman að láta taka af sér mynd eins og oftast hér í Mósambík þar sem fáir eiga myndavél og finnst nýnæmi í myndatökum.


Sólsetur við Mapútóflóa

Sólsetur við Mapútóflóa síðastliðinn sunnudag. Orin vinur minn tók myndina en hann kom í heimsókn og fór með okkur til Pemba þó hann gæti ekki stoppað þar nema í 2 og hálfan dag. Ferðin þangað tók 4 tíma með tveimur millilendingum þar sem Mapútó er mjög sunnarlega en Pemba norðarlega í Mósambík.

Fjórar af þessum stúlkum voru að leika sér á ströndinni og við fórum og tókum af þeim myndir og sýndum þeim svo. Þetta vakti svo mikla lukku að þær vildu ólmar fara með okkur að synda. Þær voru að vísu ekki syntar svo við hoppuðum með þeim við sjávarmálið þar sem grunnt er. Síðan fjölgaði þeim og þarna er mamma í hópnum. Á seinni myndinni er mamma að sóla sig við sundlaugina á hótelinu og það sér yfir ströndina.



Wimbi ströndin í Pemba

Dagana fyrir og eftir ráðstefnuna gafst svo tími til að dýfa tánum aðeins í Indlandshaf þar sem mjög fallegar strendur eru í kring um Pemba borg, eins og sjá má á myndinni og öðrum myndum hér á eftir. Mamma var með mér í ferðinni þar sem hún kom til mín á laugardaginn og naut hún lífsins á ströndinni á meðan ég var á ráðstefnunni. Við gistum á tveimur hótelum þar sem erfitt var að fá gistingu vegna mannfjöldans á ráðstefnunni. Síðustu tvær næturnar vorum við á Nautilus hótelinu sem myndin er tekin frá og gistum í litlum tveggja herbergja kofa ásamt einni samstarfskonu minni. Síðan voru nokkrir metrar í sjóinn. Þar sem júní og júlí eru kaldasti tími ársins voru fáir ferðamenn þarna og stundum nánast hægt að hafa ströndina útaf fyrir sig, nema hvað börn staðarins reyndu að drýgja tekjur heimilisins með sölu ýmissa minjagripa.
