sunnudagur, september 24, 2006

 

Heimsókn til Maganja


Hér koma nokkrar myndir af nöfnu minni sem ég tók þegar ég fór í heimsókn í byrjun september. Hún fæddist tveimur dögum áður en ég fór frá Maganja í fyrra og mamma hennar skírði hana í höfuðið á mér. Marta litla hefur vaxið og dafnað en ég hef ekki farið í heimsókn síðan í janúar. Þá brosti hún og hjalaði framan í mig en nú brá svo við að hún fór að hágráta þegar hún sá mig. Það eru svosem ekki óalgeng viðbrögð hjá ungabörnum þegar þau sjá þetta hvíta skrímsli í fyrsta sinn. Hún náði aðeins að venjast mér þessa þrjá daga sem ég var hjá þeim en tók mig aldrei fullkomlega í sátt. Fyrstu tvo dagana fór hún að gráta í hvert skipti sem ég nálgaðist. Heimilisfólkinu fannst þetta fyndið og þau snéru henni alltaf þannig að hún sæi mig. Þá snéri hún sér undan eða setti hendurnar fyrir augun :-) Síðasta daginn var hún farin að svara mér þegar ég talaði við hana. Ef maður segir nafnið hennar á ákveðinn hátt þá hjalar hún á móti. Ég vildi nú meina að gráturinn hefði að hluta til stafað af veikindum, hún var óhress en ég veit ekki alveg hvað var að. Hún hefur verið að taka tennur og mamma hennar sagði að hún væri búin að vera með niðurgang samfylgjandi því. Á hinn bóginn sagði hún að hún væri með malaríu og var að gefa henni töflur við því. Ég veit ekki hvort það hefur verið tekið malaríupróf eða hvort læknarnir hafa bara gefið henni lyfin. Hún var allavegana lasin greyið og hóstaði mikið á nóttunni.
Á fyrstu myndinni er hún í kjól sem vinkona mömmu hennar gaf henni. Á þeirri næstu er hún með mömmu sinni og systur og mér fannst endilega að ég þyrfti að setja þessa mynd þar sem hún er með uppáhaldsleikfangið sitt ,,brjóstið á mömmu." Jamia kvartaði mikið yfir að hún vildi sjúga öllum stundum og í hvert skipti sem æmti í henni var brjóstinu umsvifalaust stungið upp í hana. Semsagt afríkanska útgáfan af snuði!!! Síðan er þarna mynd af henni þar sem mamma hennar var að gefa henni að borða og önnur af henni að borða hjá Viktori frænda. Þeim kemur vel saman og Viktor var ósköp góður við hana og talaði við hana. Það tíðkast annars ekki að tala mikið við ungabörn.
Eins og sjá má á myndinni er hún dugleg að borða og ég sagði þeim að það væri greinilegt að hún hefði fengið skapið frá mömmunni en matarlystina frá mér! Hún veit greinilega hvað hún vill sú stutta og það fauk í hana þegar hún fékk ekki það sem hún vildi. Þau hefur hún auðvitað frá móðurinni en ekki frá mér. Ég vona að hún vilji þekkjast mig næst þegar ég kem en verði ekki eins og frænka hennar í næsta kofa. Sú var um eins og hálfs árs þegar ég kom til Maganja og var alltaf hálf smeyk við mig og vildi ekkert við mig tala.
Marta junior átti semsagt afmæli 14. september og það var haldin smá veisla en ég var því miður farin heim aftur.

 Posted by Picasa





<< Home

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

[ Skoða gestabók ] [ Kvitta í gestabókina ]
Sækið ykkur ókeypis gestabók hér