miðvikudagur, ágúst 16, 2006

 
Ég hef ekkert skrifað síðasta mánuðinn því það er búið að vera svo mikið að gera og gerast. Eftir að ég skrifaði síðast fór ég í viku vinnuferð til Gaza og Inhambane sýslna til að vinna með sýsluskrifstofum kvennamálaráðuneytisins. Við vorum að þróa hugmyndir að nýjum þróunarverkefnum með þeim. Það er mjög skemmtileg vinna og ferðin var að öðru leiti söguleg þar sem ég lenti í töluverðum bílavandræðum. Við fórum á tveimur bílum, þar sem tvær konur voru með frá ráðuneytinu og Langa sem vinnur fyrir okkur. Einnig Þóra sem verður starfsnemi hjá ICEIDA í sumar og svo var mamma í heimsókn og ekki gat ég skilið hana eina eftir í Mapútó. Við lögðum af stað klukkan sex á mánudagsmorgni og keyrðum sem leið lá til Xai-Xai sem er í Gaza. Þar sem ekki er mikið úrval af gististöðum í bænum fórum við um 10 kílómetra leið á ströndina og fundum þar gamalt hótel. Þegar ég kom heim um kvöldið spurði ég hvar væri hægt að leggja bílnum þannig að hann væri öruggur. Þarna var dálítil umferð af fólki og við með heilmikið af kennslugögnum fyrir námskeiðið í bílnum. Mér var sagt að það væri vaktað port fyrir aftan og keyrði þangað. Ég keyrði inn um lokað hlið og var bent að leggja uppvið hótelið, baka til. Þarna voru tvö stæði og einhverra hluta vegna ákvað ég að bakka inn og hugsaði með mér að það væri betra að geta keyrt beint út ef þarna yrðu þrengsli. Jæja við vorum dauðþreyttar eftir keyrsluna og sofnaðar um níuleytið en klukkan 11 er byrjað að berja á dyrnar og ég heyri í mjög óðamála starfsfólki fyrir utan. Ég hendi mér í spjarir og fer fram og þar er starfsstúlka sem segir mér að ég verði að koma út strax því bíllinn sé að detta ofan í holu. Fyrst yrði ég samt að vekja gestinn í næsta herbergi sem ætti hinn bílinn. Þar var kona frá Suður-Afríku á ferð með tveimur ungum börnum og vinnumanni og ég varð að túlka fyrir hana þar sem hún talaði ekki portúgölsku. Við skildum nú samt ekkert hvað þau voru að tala um fyrr en við komum út!!!
Bílaplanið hafði semsagt gefið sig og hrunið undan bílunum og bíllinn minn sat á maganum með annað afturhjólið í lausu lofti og hitt á kafi í sandi. Hinn bíllinn var enn dýpra sokkinn! Ég prísaði mig sæla fyrir að hafa bakkað inn og lagt þarna megin og vorkenndi aumingja bílstjóranum í hinum bílnum. Nú voru góð ráð dýr og ég hringdi strax í João bílstjóra ICEIDA og bað hann um að koma og hjálpa mér að ná bílnum upp. Starfsfólk hótelsins hringdi i eigandann og hann kom að vörmu spori ásamt starfsmönnum og byrjað var að spá í hlutina. Til að gera mjög langa sögu stutta þá var hægt að ná mínum bíl upp með því að tjakka hann upp að aftan og setja eldiviðarknippi undir afturhjólið, ásamt því að moka undan kviðnum á honum og setja undir hjólin að framan. Síðan vildu viðstaddir reyna að draga hvíta bílinn upp með mínum bíl en það var vitavonlaust mál þar sem hann var alltof þungur og djúpt sokkinn. Þannig að við komumst aftur í háttinn um tvöleytið. Það merkilega var að bíllinn slapp óskemmdur þar sem þetta var bara sandur, ekki steypt plan. Þarna undir voru vatnsrör og það hefur myndast eitthvað holrúm í kring um þau. Ef ég bloggaði á hverjum degi hefði ég nennt að lýsa þessu í meiri smáatriðum því þetta var auðvitað hin merkilegasta lífsreynsla. Það er hinsvegar ekki allt búið enn!!! Ég ætla að vista þessa færslu og halda svo áfram og segja frá ævintýrum okkar daginn eftir.
 Posted by Picasa

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

[ Skoða gestabók ] [ Kvitta í gestabókina ]
Sækið ykkur ókeypis gestabók hér